Vinn.is

Lög og stefnur

Á undanförnum árum hafa Evrópusambandið (ESB) og Norðurlöndin unnið að því að efla aðgerðir sem miða að sjálfbærri þróun. Áhersla hefur verið lögð á að efla vistvæn opinber innkaup og endurspeglast sú áhersla m.a. í stofnsáttmála og löggjöf ESB og í stefnu Norðurlandanna um sjálfbæra þróun. 
Sjá nánar um lagalega umgjörð vistvænna opinberra innkaupa á alþjóðlegum vettvangi í kynningu á vef ESB (Sjá Module 2: Legal framework for Green Public Procurement).

ESB hefur gefið út tilmæli til aðildarþjóðanna þess efnis að þær setji sér aðgerðaráætlun um vistvæn opinber innkaup. Slíkar áætlanir hafa nú verið samþykktar af ríkisstjórnum ýmissa aðildarþjóða ESB og aðrar eru í mótun. Sjá nánar um tilmæli ESB og starf Evrópuþjóða að aðgerðaráætlunum (Nation Action Plan - NAP).

Lög og stefnur íslenska ríkisins undanfarin ár endurspegla aukna áherslu á vistvæn opinber innkaup. Í innkaupastefnu ríkisins segir m.a. að við innkaup skuli tekið tillit til umhverfissjónarmiða jafnt sem kostnaðar og gæða. Þetta er einnig undirstrikað í lögum um opinber innkaup og í stefnumörkun stjórnvalda um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi.

Stefna um vistvæn innkaup ríkisins sem ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt, er sérgreind stefna sem heyrir undir innkaupastefnu ríkisins og nær til ráðuneyta, ríkisstofnana og ríkisaðila. Markmið hennar er að tryggja að við öll innkaup ríkisins sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða jafnt sem kostnaðar og gæða við mat á bestu kaupum, í samræmi við innkaupastefnu ríkisins. Með vistvænum innkaupum ríkisins er dregið úr umhverfisáhrifum opinberrar starfsemi og jafnframt hvatt til nýsköpunar og samkeppni á markaði um leiðir til að minnka álag á umhverfið. Aukið vöruúrval og virk samkeppni á þessu sviði stuðlar að því að lágmarka umhverfis­áhrif innkaupa og neyslu í samfélaginu öllu.

Stefna um vistvæn innkaup ríkisins er jafnframt aðgerðaráætlun Íslands um vistvæn opinber innkaup (National Action Plan).

Þú ert hér: Forsíða Vistvæn innkaup Lög og stefnur

Um verkefnið

Verkefnið Vistvæn innkaup (VINN) varð til árið 2003 sem samstarfsvettvangur opinberra aðila sem höfðu áhuga á að innleiða og vinna að vistvænum innkaupum. Endurskoðuð stefna 2013 var útvíkkuð og tekur nú einnig til græns ríkisreksturs. Meginþættir verkefnisins eru að þróa vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur, upplýsa og aðstoða.

 

Aðstandendur verkefnisins

Fjármálaráðuneytið
Umhverfisráðuneytið
Ríkiskaup
Umhverfisstofnun
Samband íslenskra sveitarfélaga
Hafnarfjarðarbær
Reykjavíkurborg
Landspítali

Hafðu samband

Hafir þú spurningar, athugasemdir eða fréttir er best að hafa samband í gegnum This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. .

Sjá einnig á Facebook og Twitter.

 

Flestar myndirnar á vefnum tók Hugi Ólafsson en nokkrar eru fengnar úr myndabanka norden.org.