Fréttir
Grænt bókhald stofnana fær andlitslyftingu
Nú er tilbúin uppfærð útgáfa af grænu bókhaldi ( útg.3) sem nær til ársins 2020. Nokkrar breytingar voru gerðar sem fólust í að leiðbeiningarnar eru nú ítarlegri, aukin áhersla var lögð á losunartölur þar sem það var hægt og verður áfram gert í næstu uppfærslum.
Nýjum flipa fyrir samgöngusamninga var bætt við, enda á áhersla stofnana að vera á umhverfisvænni samgöngur.
Einnig var reitum fyrir markmiðasetningu bætt við skjalið en stofnanir eru hvattar til að setja sér markmið á hverju ári og vinna markvisst að því að ná þeim.
Umhverfisstofnun fer með umsjón verkefnisins og veitir stofnunum aðstoð og ráðleggingar við gerð bókhaldsins. Hægt er að hafa samband við Hólmfríði Þorsteinsdóttur til að fá frekari upplýsingar eða aðstoð við að koma verkefninu af stað holmfridur.th@ust.is . Við vonum að skjalið nýtist stofnunum vel og viljum endilega fá ábendingar um lagfæringar. Svo er um að gera að breyta og bæta skjalið eftir þörfum.
Ný EU umhverfisskilyrði
Athygli er vakin á nýjum og uppfærðum umhverfisskilyrðum frá Evrópusambandinu. VINN skilyrðin sem birt eru á þessum vef byggja á þessum EU skilyrðum og má sjá þau þýdd hér:
Nokkur skilyrði hafa verið uppfærð að Evrópusambandinu en ekki þýdd ennþá. Þau má sjá hér:
- Málning, lökk og vegamerkingar (2018)
- Húsgögn (2017)
- Vefnaðarvara (2017)
- Tölvubúnaður (2016)
Sparnaður í rekstri og lágmörkun umhverfisáhrifa með Grænum skrefum og grænu bókhaldi
Taktu þátt í Grænum skrefum í ríkisrekstri og skilaðu grænu bókhaldi. Grænt bókhald er verkfæri fyrir stofnanir til að fylgjast með þýðingarmestu umhverfisþáttunum í starfsemi stofnana. Að færa grænt bókhald auðveldar stofnunum að sjá hvar tækifæri eru til hagræðingar, en þar er farið yfir m.a. pappírskaup, sorphirðu, samgöngur, hita og rafmagn.
Áhugi stofnana á umhverfismálum hefur aukist mikið á síðustu árum sem má sjá á því að 40 stofnanir eru núna þátttakendur í Grænum skrefum í ríkisrekstri með yfir 100 starfsstöðvar. Þessar stofnanir skila grænu bókhaldi á hverju ári í apríl.
Dæmi um árangur stofnana sem hafa innleitt Græn skref:
- Flokkun úrgangs þátttökustofnana jókst um 21% milli 2014 og 2015
- Hlutfall umhverfismerkts pappírs er nú 100% hjá þessum stofnunum
- Umhverfis- og auðlindaráðuneyti flokkar nú 62% alls úrgangs sem fellur til
- Háskóli Íslands dregur úr pappírsnotkun um 2 kg á starfsmann á ári síðan 2012
Umhverfisstofnun fer með umsjón verkefnisins og veitir stofnunum aðstoð og ráðleggingar við gerð bókhaldsins. Hægt er að hafa samband við Hólmfríði Þorsteinsdóttur til að fá frekari upplýsingar eða aðstoð við að koma verkefninu af stað holmfridur.th@ust.is . Við hvetjum allar stofnanir til að hefjast handa.
Á vef vistvænni innkaupa má sjá niðurstöður úr Grænu bókhaldi þeirra stofnana sem sendu inn fyrir árin 2011- 2015, og leiðbeiningar um gerð þess.
Að lokum má benda á facebook síðu vistvænni innkaupa og græns ríkisreksturs. Facebook auðveldar miðlun upplýsinga og reynslusaga, einnig er hægt að leita nýta facebook til að fá ráðleggingar frá öðrum stofnunum. Fyrsta skrefið er því að smella „læki“ á síðuna https://www.facebook.com/graennrikisrekstur/
Handbók um vistvæn opinber innkaup
Áætlað er að opinberar stofnanir íslenska ríkisins noti um 150 milljarða í innkaup á hverju ári og 300 milljarða ef sveitarfélög eru meðtalin. Því gefur að skilja að skynsöm vistvæn innkaup geta haft mikil áhrif við að draga úr umhverfisáhrifum. Sem dæmi má nefna að framfylgd stefnu um vistvæn opinber innkaup í Austurríki hefur dregið úr losun CO2 um 20% eða 124 tonn og dregið úr orkunotkun um 20%. Út er komin 3ja útgáfa (sjá hér frétt) af handbók um opinber vistvæn innkaup frá Evrópusambandinu sem stofnanir og aðrir geta nýtt sér við innkaup sín (sjá hér PDF útgáfu).
Grænt bókhald lækkar rekstrarkostnað
Stofnanir ríkisins eru hvattar til þess að minnka umhverfisáhrif daglegs reksturs en með Grænu bókhaldi fá stofnanir yfirsýn yfir magntölur í rekstri og geta þannig komið auga á tækifæri til að draga úr rekstrarkostnaði og umhverfisáhrifum á sama tíma. Nú er komið að skilum fyrir árið 2015 en frestur er til 1. apríl n.k.
Sem dæmi má nefna að:
Pappírsnotkun stofnana sem skiluðu Grænu bókhaldi minnkaði um 29% og ef allar stofnanir gerðu slíkt hið sama myndu um 70 milljónir sparast í ríkisrekstri.
Raforkunotkun á hvert stöðugildi lækkaði um 13%
Dæmi um árangur og stöðu þeirra stofnana sem skilað hafa síðustu ár má sjá hér.
Umhverfisstofnun fer með rekstur verkefnisins og veitir stofnunum aðstoð og ráðleggingar við gerð bókhaldsins. Hægt er að hafa samband við Hólmfríði Þorsteinsdóttur um aðstoð holmfridur.th@ust.is og hvetjum við stofnanir til að gera það.
Skilum Grænu bókhaldi á netfangið: innkaup@fjr.is