Besti kosturinn
Við val á besta kosti við innkaup þarf því að hafa í huga eftirfarandi
- Uppfyllir varan eða þjónustan þörfina sem hún á að uppfylla?
- Hver er líftímakostnaðurinn?
- Hvaða vara eða þjónusta er best út frá umhverfissjónarmiði?
Stundum getur verið erfitt að meta hvað er best út frá umhverfissjónarmiði, jafnvel þó að upplýsingar um umhverfisþætti liggi fyrir. Þá er gott að hafa eftirfarandi atriði í huga:
- Velja umhverfisvottað: Vara eða þjónusta með áreiðanlegu umhverfismerki er trygging neytenda fyrir því að hún skaði umhverfið minna en aðrar sambærilegar vörur eða þjónusta. Ef um þjónustu er að ræða er mælt með að velja fyrirtæki sem er með vottað umhverfisstjórnunarkerfi ef kostur er. Athugið að hið síðastnefnda á aðeins við um þjónustu en ekki vörur. Ekki er leyfilegt að merkja vörur með merki ISO 14001 þar sem það segir ekkert um eiginleika vörunnar.
- Velja samkvæmt gátlistunum: Ef til er umhverfisgátlisti fyrir vöruna fylgið þeim.
- Nota skynsemina: Ef ekki er hægt að kaupa umhverfisvottað og enginn gátlisti er fyrir hendi, ætti einkum að velja vörur sem eru með góða orkunýtni, hafa verið fluttar styttri vegalengdir, leiða til minni efnanotkunar og/eða eru í litlum umbúðum.