Vinn.is

Aukinn áhugi viðskiptavina

Seljendur geta gert ýmislegt til að bregðast við auknum áhuga viðskiptavina á vistvænum innkaupum:
  • Kynnið ykkur væntingar og kröfur viðskiptavina. Nú snúast þær einnig um umhverfissjónarmið tengd vörum og þjónustu.
  • Kynnið ykkur umhverfiskröfur sem tengjast tilteknum vörum eða þjónustu. Opinberir aðilar og stærri fyrirtæki setja í auknum mæli skýrar umhverfiskröfur við innkaup m.a. í útboðum. Sjá m.a.  gátlista fyrir almenn innkaup og umhverfisskilyrði fyrir ýmsa vöruflokka.
  • Kynnið ykkur umhverfisáhrif vöru ykkar eða þjónustu. Er hún umhverfismerkt og hvað felur þá umhverfismerkið í sér? Hver er líftímakostnaðurinn? Slíkar spurningar viðskiptavina verða æ algengari og þá er ekki gott að standa á gati!
  • Komið ykkur upp umhverfisstjórnunarkerfi. Vottað umhverfisstjórnunarkerfi, s.s. ISO 14001, getur orðið forsenda fyrir viðskipti í sumum tilvikum. Umhverfisstjórnunarkerfi er einnig gott verkfæri til að lágmarka umhverfisáhrif vegna starfseminnar- og um leið bæta gæðin í starfseminni.
  • Ræðið við viðskiptavini um áherslur þeirra og óskir. Þannig er auðveldara að gera þeim til hæfis. Upp úr því geta líka sprottið nýjar hugmyndir og lausnir. Kannið framboð hjá ykkar birgjum og óskið eftir auknu úrvali umhverfisvænna vara.
  • Kannið hvað samkeppnisaðilarnir hafa upp á að bjóða. Þar geta leynst góðar hugmyndir og tækifæri til að gera betur.
  • Standið við stóru orðin. Skrifið og segið ekki meira um umhverfismálin en þið getið staðið við. Trúverðugleiki er númer eitt, tvö og þrjú. Í útboðum er mikilvægt að geta sýnt fram á með óyggjandi hætti að umhverfisskilyrði séu uppfyllt. Áreiðanlegt umhverfismerki (vottað af óháðum aðila) á vöru og þjónustu er góð leið til að sanna að svo sé. Að öðrum kosti er ráðlegt að útvega trúverðugar upplýsingar um umhverfismál tengd vörunni eða þjónustunni.
  • Upplýsið viðskiptavini um umhverfismálin. Oft eru upplýsingar seljenda um umhverfismál af skornum skammti og því er gott að senda reglulega upplýsingar til viðskiptavina með lykiltölum s.s. um innkaupamagn þeirra, hlutfall af umhverfisvænum vörum og einnig fréttir af fyrirtækinu, nýjum umhverfisvænum vörum o.fl. Slíkt eykur trúverðugleika og líkur á frekari samningum.
Þú ert hér: Forsíða Seljendur Aukinn áhugi viðskiptavina

Um verkefnið

Verkefnið Vistvæn innkaup (VINN) varð til árið 2003 sem samstarfsvettvangur opinberra aðila sem höfðu áhuga á að innleiða og vinna að vistvænum innkaupum. Endurskoðuð stefna 2013 var útvíkkuð og tekur nú einnig til græns ríkisreksturs. Meginþættir verkefnisins eru að þróa vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur, upplýsa og aðstoða.

 

Aðstandendur verkefnisins

Fjármálaráðuneytið
Umhverfisráðuneytið
Ríkiskaup
Umhverfisstofnun
Samband íslenskra sveitarfélaga
Hafnarfjarðarbær
Reykjavíkurborg
Landspítali

Hafðu samband

Hafir þú spurningar, athugasemdir eða fréttir er best að hafa samband í gegnum This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. .

Sjá einnig á Facebook og Twitter.

 

Flestar myndirnar á vefnum tók Hugi Ólafsson en nokkrar eru fengnar úr myndabanka norden.org.