Hjólbarðar
Gátlisti fyrir almenn innkaup á hjólbörðum.
- Veljið hjólbarða sem uppfylla kröfur Svansins eða eru merktir Svaninum. Svansmerktir hjólbarðar eru; lausir við fjölhringa arómatískar olíur (PCA olíur) á slitflötum og valda því minni losun heilsuspillandi efna í andrúmsloft; uppfylla kröfur um litla snúningsmótstöðu og spara þannig eldsneyti; eru hljóðlátari í akstri; uppfylla sérstakar gæðakröfur og kröfur um losun við framleiðslu hjólbarðanna.
- Veljið sólaða hjólbarða, þ.e. notaða hjólbarða með nýjum sólum. Með því að velja sólaða hjólbarða er dregið úr notkun óendurnýjanlegra auðlinda og úrgangi. Fyrir fólksbíla þarf sérstaklega að huga að lítilli snúningsmótstöðu. Lítil snúningsmótstaða skiptir meira máli út frá umhverfissjónarmiði en að kaupa sólaða hjólbarða.
- Veljið hjólbarða með minni snúningsmótstöðu. Snúningsmótstaða hjólbarða hefur áhrif á orkunotkun. Það á einkum við um akstur við meðalhámarkshraða á þjóðvegum eða í þéttri byggð. Veljið því frekar hjólbarða með litla snúningsmótstöðu, einnig ef hjólbarðarnir eru sólaðir.