Málning
Gátlisti fyrir almenn innkaup á málningu.
- Veljið málningu sem hentar verkefninu. Mikilvægt er að velja rétta málningu sem hentar verkefninu, bæði m.t.t. gæða og endingar. Leitið til málara sem gefur góð ráð og leiðbeiningar um viðeigandi málningu.
- Veljið málningu sem merkt er Svaninum eða Blóminu. Umhverfismerkin Blómið og Svanurinn eru trygging fyrir því að varan sé ein sú umhverfisvænasta á markaðnum án þess að það komi niður á gæðum eða virkni.
- Veljið málningu með lágar tölur varúðarflokka eins og gæðakröfur ykkar leyfa. Vörur með lágar tölur varúðarflokka innihalda minna af umhverfis- og heilsuskaðlegum efnum. Málning með lágar tölur inniheldur einnig minna af leysiefnum en málning með hærri tölu.
Tölurnar eru tvær, t.d. 0-1 eða 2-1. Fyrri talan gefur til kynna hversu hættulegt efnið er til innöndunar. Seinni talan gefur til kynna mögulega ertingu á húð eða ofnæmi. 0 er hættuminnst í báðum tilvikum. - Mælið og reiknið út stærð flatarins sem á að mála. Þannig komið þið í veg fyrir að kaupa of mikið af málningu sem svo þarf að henda. Oftar en ekki er keypt of mikil málning, stundum vegna þess að það munar ekki svo miklu í verði eða til að vera alveg örugg með magn. Aukamálningin endar oftar en ekki sem úrgangur.