Vistvæn innkaup
Íslenska ríkið kaupir vörur og þjónustu fyrir um 150 milljarða króna á ári. Í Evrópu eru opinber innkaup talin nema um 18% af vergri þjóðarframleiðslu. Miðað við þetta hlutfall má áætla að opinber innkaup á Íslandi séu um 300 milljarðar á ári, þar af kaupa sveitarfélög vörur og þjónustu fyrir um 150 milljarða á ári.
Ljóst er að áhrifamáttur opinberra innkaupa er mikill. Með því að setja skýrar kröfur um umhverfissjónarmið í opinberum innkaupum gefst tækifæri til að hvetja til nýsköpunar og virkrar samkeppni um vistvænar vörur og þjónustu á markaðinum. Um leið er stuðlað að því að draga verulega úr umhverfisáhrifum innkaupa og neyslu í opinberri starfsemi og samfélaginu öllu.
Vistvæn innkaup fela í sér margs konar ávinning fyrir kaupendur, seljendur og samfélagið allt.
Vistvæn innkaup...
...draga úr umhverfisáhrifum starfsemi. Við innkaup eru teknar ákvarðanir sem hafa áhrif á notkun vöru og þjónustu víða í starfsemi fyrirtækja og stofnana. Með því að taka mið af þörf, líftímakostnaði og umhverfisáhrifum við innkaup er hægt að draga verulega úr umhverfisáhrifum sem fylgja notkun á ýmis konar vöru og þjónustu í starfseminni. Þannig er einnig stuðlað að bættu vinnuumhverfi og betri heilsu.
...geta minnkað kostnað og aukið gæði. Við vistvæn innkaup er tekið tillit til kostnaðar í gegnum allan líftíma vörunnar þ.e. við innkaup, rekstur, viðhald og förgun vörunnar. Einnig er lögð áhersla á að varan eða þjónustan uppfylli þarfir og væntingar kaupandans. Að leggja aukna áherslu á líftímakostnað og að skilgreina þörf getur aukið gæði innkaupa og minnkað kostnað þegar á heildina er litið.
... auka framboð á vistvænum vörum og þjónustu og hvetja til nýsköpunar. Með því að leggja aukna áherslu á vistvæn opinber innkaup er hægt að stækka markað og auka framboð af vistvænum vörum og þjónustu. Auknar kröfur hvetja jafnframt til nýsköpunar og samkeppni um leiðir til að minnka álag á umhverfi og heilsu. Þar sem hið opinbera er umsvifamikið í innkaupum hefur það mikil tækifæri til að hafa áhrif á markaðinn á þessu sviði.