Vinn.is

Vistvæn innkaup

Íslenska ríkið kaupir vörur og þjónustu fyrir um 150 milljarða króna á ári. Í Evrópu eru opinber innkaup talin nema um 18% af vergri þjóðarframleiðslu. Miðað við þetta hlutfall má áætla að opinber innkaup á Íslandi séu um 300 milljarðar á ári, þar af kaupa sveitarfélög vörur og þjónustu fyrir um 150 milljarða á ári.

Ljóst er að áhrifamáttur opinberra innkaupa er mikill. Með því að setja skýrar kröfur um umhverfissjónarmið í opinberum innkaupum gefst tækifæri til að hvetja til nýsköpunar og virkrar samkeppni um vistvænar vörur og þjónustu á markaðinum. Um leið er stuðlað að því að draga verulega úr umhverfisáhrifum innkaupa og neyslu í opinberri starfsemi og samfélaginu öllu.

Vistvæn innkaup fela í sér margs konar ávinning fyrir kaupendur, seljendur og samfélagið allt.

Vistvæn innkaup...

...draga úr umhverfisáhrifum starfsemi. Við innkaup eru teknar ákvarðanir sem hafa áhrif á notkun vöru og þjónustu víða í starfsemi fyrirtækja og stofnana. Með því að taka mið af þörf, líftímakostnaði og umhverfisáhrifum við innkaup er hægt að draga verulega úr umhverfisáhrifum sem fylgja notkun á ýmis konar vöru og þjónustu í starfseminni. Þannig er einnig stuðlað að bættu vinnuumhverfi og betri heilsu.

...geta minnkað kostnað og aukið gæði. Við vistvæn innkaup er tekið tillit til kostnaðar í gegnum allan líftíma vörunnar þ.e. við innkaup, rekstur, viðhald og förgun vörunnar. Einnig er lögð áhersla á að varan eða þjónustan uppfylli þarfir og væntingar kaupandans. Að leggja aukna áherslu á líftímakostnað og að skilgreina þörf getur aukið gæði innkaupa og minnkað kostnað þegar á heildina er litið. 

... auka framboð á vistvænum vörum og þjónustu og hvetja til nýsköpunar. Með því að leggja aukna áherslu á vistvæn opinber innkaup er hægt að stækka markað og auka framboð af vistvænum vörum og þjónustu. Auknar kröfur hvetja jafnframt til nýsköpunar og samkeppni um leiðir til að minnka álag á umhverfi og heilsu. Þar sem hið opinbera er umsvifamikið í innkaupum hefur það mikil tækifæri til að hafa áhrif á markaðinn á þessu sviði.

Þú ert hér: Forsíða Vistvæn innkaup

Um verkefnið

Verkefnið Vistvæn innkaup (VINN) varð til árið 2003 sem samstarfsvettvangur opinberra aðila sem höfðu áhuga á að innleiða og vinna að vistvænum innkaupum. Endurskoðuð stefna 2013 var útvíkkuð og tekur nú einnig til græns ríkisreksturs. Meginþættir verkefnisins eru að þróa vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur, upplýsa og aðstoða.

 

Aðstandendur verkefnisins

Fjármálaráðuneytið
Umhverfisráðuneytið
Ríkiskaup
Umhverfisstofnun
Samband íslenskra sveitarfélaga
Hafnarfjarðarbær
Reykjavíkurborg
Landspítali

Hafðu samband

Hafir þú spurningar, athugasemdir eða fréttir er best að hafa samband í gegnum This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. .

Sjá einnig á Facebook og Twitter.

 

Flestar myndirnar á vefnum tók Hugi Ólafsson en nokkrar eru fengnar úr myndabanka norden.org.