Orðalisti
Ákvæði um framkvæmd samnings
Skilyrði innan samnings um hvernig skal staðið að t.d. afhendingu á vöru eða þjónustu. reikningagerð ofl.
Bestu kaup
Bestu kaup taka tillit heildarkostnaðar, ávinnings og umhverfissjónarmiða. Ef vörur eða þjónusta er sambærileg að öðru leyti ber að velja þann kost sem telst síður skaðlegur umhverfinu.
Grunnviðmið
Í grunnviðmiðum er lögð áhersla á mikilvægustu umhverfisáhrif viðkomandi vöru/þjónustu.
Grænn ríkisrekstur
Grænn ríkisrekstur (samheiti: vistvænn eða umhverfisvænn ríkisrekstur) er sá rekstur sem hefur minni neikvæð áhrif á umhverfið en annar sambærilegur rekstur. Í rekstri eru umhverfisþættir sem hafa gagnkvæma verkun á umhverfið, svo sem samgöngur, orkunotkun, efnanotkun og innkaup. Markviss stjórnun þessara þátta, með stuðningi umhverfisstefnu og vinnu að markmiðum og aðgerðaráætlun, dregur úr neikvæðum áhrifum á umhverfið.
Grænt bókhald
Grænt bókhald er efnisbókhald þar sem fram koma upplýsingar um hvernig innkaupum á rekstrarvöru og þjónustu er háttað, aðallega í formi tölulegra upplýsinga. Grænt bókhald gefur yfirsýn yfir magntölur í rekstri og vísar þannig á tækifæri til að draga úr umhverfisáhrifum.
Hæfi bjóðenda
Hæfi bjóðenda er metið á grundvelli þeirra upplýsinga sem þeir senda inn með tilboðum sínum. Útboðsaðilar skulu setja inn lágmarkskröfur um hæfi bjóðendavið útboðsgerð.
Ítarleg viðmið
Ítarleg viðmið ganga lengra en grunnviðmið og eru fyrir kaupendur sem leggja áherslu á að kaupa umhverfishæfustu vöru/þjónustu sem er á markaðnum á hverjum tíma.
Lágmarksskilyrði
Lágmarksskilyrði eru ófrávíkjanleg skilyrði sem boðin vara eða þjónusta skal uppfylla svo að tilboð verði tekið til nánari skoðunar. Tilboð sem uppfyllir ekki lágmarksskilyrði er hafnað.
Líftímakostnaður
Líftímakostnaður er innkaupaverð vöru auk kostnaðar við rekstur, viðhald og förgun. Rekstur vörunnar er oft margfalt dýrari en innkaupaverð vörunnar. Það á t.d. við um prentara og bíla.
Matsviðmið
Matsviðmið eru viðmið sem hægt er að uppfylla í mismiklum mæli og er oft hluti af matslíkani útboðsgagna. Matsviðmiðin eru notuð sem aukaviðmið ef útboðsaðili vill veita aukastig tilboði sem stendur sig betur en lágmarksskilyrðin segja til um varðandi umhverfis-og gæðaþætti.
Rammasamningur
Samningur sem einn eða fleiri kaupendur gera við eitt eða fleiri fyrirtæki í þeim tilgangi að slá föstum skilmálum einstakra samninga sem gerðir verða á tilteknu tímabili, einkum að því er varðar verð og fyrirhugað magn.
Sjálfbærnivísar
Sjálfbærnivísar eru mælikvarðar sem meta árangur á sviði sjálfbærni, það er árangur á sviði efnahags, samfélags og umhverfis. Global Reporting Initiative (GRI) eru dæmi um samtök sem hafa þróað alþjóðleg viðmið um gerð sjálfbærnivísa og hvernig þeim skuli miðlað á áreiðanlegan og gagnsæjan hátt í ársskýrslum.
Umhverfisáhrif
Umhverfisáhrif eru allar breytingar á umhverfinu, neikvæðar eða jákvæðar, sem að einhverju eða öllu leyti stafa frá umhverfisþáttum fyrirtækis.
Umhverfismerki
Viðurkennt umhverfismerki er trygging kaupenda fyrir því að varan eða þjónustan skaði umhverfið minna en aðrar sambærilegar vörur eða þjónusta. Umhverfismerkt vara eða þjónusta uppfyllir tiltekin umhverfisskilyrði sem oftast ná til alls lífsferils vörunnar s.s. hráefnisvals, hönnunar, framleiðslu, flutninga, notkunar og förgunar. Áreiðanlegt umhverfismerki byggir á úttekt óháðs aðila og uppfyllir staðal um Tegund 1.
Umhverfisskilyrði
Umhverfisskilyrði eru kröfur eða viðmið um umhverfisþætti tengdir eiginleikum þeirrar vöru eða þjónustu sem boðin er út og sett eru fram í útboðsgögnum. Umhverfisskilyrði eru sett fram sem lágmarksskilyrði eða matsviðmið. Einnig má setja umhverfisskilyrði fram sem samningsskilyrði.
Umhverfisstefna
Umhverfisstefna er ásetningur um verklag sem ráðast þarf í til að ná tilteknum markmiðum á sviði umhverfismála. Umhverfisstefna markar leiðina til framtíðarsýnar og er það sem stjórnendur innleiða með starfsfólki sínu.
Umhverfisstjórnunarkerfi
Fyrirtæki með vottað umhverfisstjórnunarkerfi uppfyllir kröfur um markvissa stjórnun umhverfisþátta í starfseminni og stöðugar umbætur í umhverfismálum í samræmi við umhverfisstefnu sína. Umhverfisstjórnunarkerfi sem byggt er upp samkvæmt ákveðnum stöðlum getur fengið vottun óháðs aðila. Dæmi um slíkan staðal er ISO 14001 og EMAS.
Umhverfisvottun
Umhverfisvottun er vottun óháðs aðila um að kröfur áreiðanlegra umhverfismerkja eða umhverfisstjórnunarkerfa séu uppfylltar.
Umhverfisyfirlýsing (e. environmental product declaration)
Lýsing á umhverfisþáttum og áhrifum vöru, kerfis eða þjónustu á lífsferli þess, allt frá hráefnisöflun, í gegnum framleiðsluna og notkun til förgunar. Áreiðanleg umhverfisyfirlýsing byggir á úttekt óháðs aðila og uppfyllir ISO 14025 staðal um Tegund III.
Umhverfisþáttur
Umhverfisþáttur er hluti af starfsemi fyrirtækis, vöru eða þjónustu sem getur haft gagnkvæma verkun á umhverfisð.
Vistvæn innkaup
Vistvæn innkaup er að velja þá vöru eða þjónustu sem er síður skaðleg umhverfinu eða heilsu manna og ber sama eða lægri líftímakostnað samanborið við aðrar vörur og þjónustu sem uppfylla sömu þörf.