Þvottahús
Gátlisti fyrir almenn kaup á þjónustu þvottahúsa.
Hér má finna spurningar sem spyrja ætti birgja.
Fáið upplýsingar um þvottaefnin og umbúðirnar:
- Eru þvottaefni án tensíðanna LAS, APEO og NPEO? Sniðgangið virku efnin (tensíð) LAS, APEO og NPEO. Sum efnanna eru eitruð vatnalífverum, önnur brotna illa niður eða brotna niður í efni sem grunuð eru um að hafa hormónatruflandi áhrif.
- Eru þvottaefnin án bindlanna EDTA, NTA og fosfónata? EDTA, NTA og fosfónatar eru bindlar (e. complexing agents), þ.e.a.s. efni sem draga úr hörku vatns. EDTA og fosfónatar brotna illa niður í hreinsivirkjum frárennslis og eru skaðleg eða hættuleg vatnalífverum. EDTA og NTA binda þungmálma sem flytjast þannig með frárennslinu út í vatnakerfi.
- Eru þvottaefnin án ljósvirkra bleikiefna (optical brightener)? Ljósvirk bleikiefni eru torleystar sameindir og eitraðar vatnalífverum. Ljósvirk bleikiefni hafa ekki hreinsandi áhrif en láta hvítan þvott líta út fyrir að vera hvítari með því að endurkasta meira af bláu en gulu ljósi.
- Eru þvottaefnin án litar- og ilmefna? Litar- og ilmefni geta verið skaðleg umhverfinu. Ilmefnin geta haft ertandi áhrif á öndunarvegi og framkallað ofnæmi hjá viðkvæmum einstaklingum. Sniðganga ætti efnin þar sem þau eru ekki nauðsynleg fyrir þvottavirknina.
- Eru þvottaefnin án skaðlegra efna? Með skaðlegum efnum er átt við efni sem eru krabbameinsvaldandi, hafa neikvæð áhrif á æxlun, eru ofnæmisvaldandi eða hafa skaðleg áhrif á taugakerfið. Þetta eru efni sem geta valdið varanlegum heilsuskaða.
- Eru umbúðir án PVC? Við brennslu á PVC myndast mörg mengandi efni.
Fáið upplýsingar um þvottahúsið:
- Er þvottahúsið með vottað umhverfisstarf? Ef þvottahúsið hefur fengið vottun á umhverfisstarf sitt (ISO 14001 eða EMAS) má gera ráð fyrir því að skipulega sé unnið að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum vegna starfseminnar.
- Vinnur þvottahúsið skipulega með vinnuvernd eða er vinnuvernd hluti af umhverfisstjórnunarkerfinu? Hafi þvottahúsið innleitt vottað vinnuumhverfisstarf (t.d. OHSAS 18001), má gera ráð fyrir að skipulega sé unnið að því að bæta vinnuumhverfi. ISO 14001 og EMAS tekur ekki til vinnuumhverfis, en fyrirtækið getur auðveldlega innleitt það í stjórnunarkerfi sitt.
- Býður þvottahúsið upp á umhverfismerkt lín? Sé línið merkt Blóminu eða Svaninum er það trygging fyrir því að varan hefur sem minnst umhverfisáhrif án þess að það komi niður á gæði eða virkni. Sé línið merkt Øko-Tex 100-staðlinum, gefur það til kynna að varan sé undir mörkum fyrir nokkur heilsuskaðleg efni og efnasambönd.
- Er skráð notkun á orku, vatni og þvottaefnum? Ef þvottahúsið fylgist ekki með notkun á orku, vatni og þvottaefnum er meiri hætta á sóun.
- Er þvottahúsið með skriflega vinnuverndaráætlun? Ef þvottahúsið vinnur eftir skriflegri vinnuverndaráætlun má gera ráð fyrir að unnið sé af alvöru með öryggi og heilbrigði í daglegum störfum.
Fáið upplýsingar um endurnotkun:
- Stuðlar þvottahúsið að því að föt sem hætt er að nota séu send til endurvinnslu? Þvottahúsið ætti að safna úreldum fötum til endurvinnslu, fötin nýtast til að búa til ný klæði, klúta og þess háttar.
- Sendir þvottahúsið umbúðir til endurvinnslu eða endurnotkunar? Ef þvottahúsið sendir notaðar umbúðir til endurvinnslu eða endurnotkunar ætti það að draga úr auðlindanotkun.