Undirbúningur útboðs
Hvað á að bjóða út?
Reglur um útboð taka ekki til þess hvað skuli kaupa, þ.e. skilgreiningu á vöru, heldur hvernig framkvæma skuli útboðið. En það er einmitt í undirbúningsskrefinu, skilgreiningu á vöru, sem oft er hægt að ná mestri hagræðingu í útboðum - og hvetja um leið til nýsköpunar á markaðnum.
Stundum getur verið betra að bjóða út þjónustu en vöru. Sem dæmi getur verið hagkvæmara að leigja hluti í stað þess að kaupa þá. Þá verður betri nýting á vörunum og er þannig umhverfisvænna þegar á heildina er litið. Önnur leið er að gera þjónustusamninga s.s. varðandi prentun, ljósritun og ræstingar. Þá getur komið í ljós við þarfagreiningu að hægt er að uppfylla þörfina á mun einfaldari hátt s.s. með endurnýtingu eða breyttu vinnulagi.
Einfaldasta og gagnsæjasta leið í útboðum með vistvænum áherslum er að umhverfissjónarmiðin komi fram í heiti vörunnar. Í útboðsgögnunum er svo hægt að setja fram nánari umhverfisskilyrði. Við skilgreiningu á vörunni þarf þó að hafa í huga að hún má ekki leiða til mismununar sbr. meginreglur ESB.
- Veitingaþjónusta sem býður upp á lífrænt ræktaðar matvörur.
- Metanbifreið
- Hönnun og bygging vistvænnar byggingar
- Umhverfisvæn ræstingarþjónusta