Vinn.is

Hvað eru vistvæn innkaup?

Vistvæn innkaup er að velja þá vöru eða þjónustu sem er síður skaðleg umhverfinu eða heilsu manna og ber sama eða lægri líftímakostnað samanborið við aðrar vörur og þjónustu sem uppfylla sömu þörf.

Fréttir

Vistvæn útboð Reykjavíkurborgar vekja alþjóðlega athygli

Útboð Reykjavíkurborgar á vistvænum ræstingum hafa hlotið alþjóðlega athygli sem gott dæmi um hvernig opinberir aðilar geta stuðlað að aukinni sjálfbærni og um leið náð fram umtalsverðum sparnaði. Reykjavíkurborg skrifaði nýlega samantekt um útboðin og árangur þeirra að beiðni ICLEI sem gott dæmi um innleiðingu vistvænna innkaupa og verður hún birt í gögnum sem kynnt verða á alþjóðlegu ráðstefnunni Ríó +20 á næsta ári.

Dæmisagan - Frá hugmynd til árangurs!

Í tveimur ræstingarútboðum á vegum Reykjavíkurborgar árið 2009 voru sett skýr umhverfisskilyrði m.a. um efnanotkun og gefin stig ef þjónustan uppfyllti kröfur um umhverfisvottun. Útboðin byggðu á ítarlegri þarfagreiningu í samráði við notendur.

Árangur útboðanna var eftirfarandi:

 • Kostnaður vegna ræstinganna minnkaði um 50%, þ.e. um 90 milljónir á ári.
 • Efnanotkun minnkaði um 65% í öðru útboðinu og 33% í hinu.
 • Meira en 95% af efnum í ræstingunum eru umhverfisvottuð.
 • Plastpokanotkun í skrifstofuhúsnæði minnkaði um 200 kg ári.
 • Heilsusamlegra vinnuumhverfi.
 • Aukin ánægja hjá starfsfólki Reykjavíkurborgar með ræstingarnar.
 • Mikil fjölgun Svansvottana á Íslandi. Markaðshlutdeild Svansvottaðrar ræstingarþjónustu jókst úr því að vera minna en 10% árið 2009 í meira en 50% árið 2011.
 • Stóraukið framboð af vistvænum ræstingarefnum og ræstingarvörum hjá söluaðilum á Íslandi.

 

Myndin sýnir fjölda Svansvottana á Íslandi á árunum 2000 - sept. 2011, bæði heildarfjölda (grænt) og fjölda vottana fyrir ræstingarþjónustur (rautt).

Hvað var gert?

Þegar flytja átti hluta skrifstofu Reykjavíkurborgar í nýtt húsnæði í Borgartúni þótti kjörið að kaupa vistvæna ræstingu. Við undirbúning útboðsins kom í ljós að lítið framboð var af vistvænum lausnum, t.d. var aðeins ein Svansvottuð ræstingaþjónusta. Því var valin sú leið að setja skilyrði tengd umhverfisvottun sem stigamatsskilyrði í útboðsgögnunum. Útboðið gekk vel og skilaði umtalsverðum sparnaði, auknum gæðum og minni umhverfisáhrifum. Þá var ákveðið að taka næsta skref og setja sams konar umhverfisskilyrði við útboð á ræstingum í leikskólum borgarinnar. Hér er lýst framkvæmd útboðanna:

Skref 1: Umhverfisskilyrði voru sett í útboð fyrir ræstingaþjónustu í nýrri skrifstofubyggingu við Höfðatorg (10.218 m2) - mars 2009.

 • Undirbúningur útboðs í samstarfi Innkaupaskrifstofu, Framkvæmda og eignasviðs og Umhverfis- og samgöngusviðs.
 • Þarfagreining unnin með aðstoð sérfræðings í ræstingum. Greiningin leiddi í ljós að draga mátti úr tíðni ræstinga um 50% og mælt var með ræstingum á skrifstofutíma.
 • Umhverfisskilyrði útbúin af teymi. Stuðst var við viðmið Procura+ og Svansins. Gefin voru stig ef bjóðendur voru með umhverfisstjórnunarkerfi, umhverfismerki eða sambærilegt auk þess sem dregið var úr tíðni ræstinga og gerð krafa um að ræst yrði á skrifstofutíma.

Skref 2: Umhverfisskilyrði voru sett í útboð fyrir ræstingaþjónustu í 63 leikskólum borgarinnar (30.354 m2)  - september 2009.

 • Undirbúningur útboðs í samstarfi Innkaupaskrifstofu, Leikskólasviðs og Umhverfis- og samgöngusviðs.
 • Þarfagreining unnin af teymi með aðstoð sérfræðings í ræstingum. Greiningin tók mið af þörfum notenda í samráði við leikskólastjóra. Lítið svigrúm til að minnka tíðni ræstinga.
 • Umhverfisskilyrðin nánast þau sömu og í fyrra útboðinu (skref 1).

Hvaða lærdóma má draga af þessari dæmisögu?

Í útboðunum tveimur náðist umtalsverður árangur og auk þess fékkst þar reynsla sem læra má af og nýta sér við innleiðingu vistvænna innkaupa.

Þetta gekk vel:

 • Vel reyndist að byrja á litlu verkefni og yfirfæra svo á stærra verkefni þegar vel gekk.
 • Að vísa í kröfur umhverfisvottana í útboðsskilyrðum reyndist öflug leið til að hvetja til aukins framboðs af vistvænum valkostum á markaði.
 • Vistvæn útboð leiddu til umtalsverðs sparnaðar og þar gegndi þarfagreiningin lykilhlutverki.
 • Við undirbúning útboðanna var mikilvægt að vinna með hagsmunaaðilum þar sem það gaf nauðsynlegar upplýsingar um þarfir notenda og undirbjó þá undir fyrirhugaðar breytingar. 
 • Vel reyndist að undirbúa útboðin í þverfaglegum teymum aðila með þekkingu á innkaupa- og umhverfismálum og á þörfum notenda. 

Þetta hefði mátt gera betur:

 • Kröfur um umhverfismál í útboðunum hefði mátt kynna fyrr fyrir birgjum og þjónustuaðilum. Þeir hefðu þá haft lengri tíma til að undirbúa sig undir þessar nýju kröfur.
 • Gagnlegt hefði verið að setja sem samningsskilyrði að bjóðendur gefi reglulega upplýsingar um frammistöðu sína í umhverfismálum.

Vistvæn innkaup á Íslandi - áskoranir og tækifæri

Á síðustu misserum hefur vistvænum innkaupum vaxið fiskur um hrygg á alþjóðlegum vettvangi, enda hafa þau bæði skilað góðum árangri og reynst öflug leið fyrir stjórnvöld til að ná markmiðum um aukna sjálfbærni samfélagsins.  Á Íslandi hefur áhugi og vitund um umhverfismál og vistvæn innkaup einnig stóraukist. 

Helstu áskoranir vistvænna innkaupa á Íslandi snúa að smæð samfélagsins og fjarlægð frá mörkuðum. Innkaupadeildir er oft fámennar og úrval vistvænna vara og þjónustu takmarkað. Á hinn bóginn geta breytingar tekið skjótan tíma í litlu samfélagi þegar öflug markaðstæki eru notuð eins og sannast í þessu dæmi.

Árangur Reykjavíkurborgar í þessari dæmisögu er svo sannarlega hvatning fyrir opinbera aðila að vinna að vistvænum innkaupum, meðal annars með útboðum sem byggja á góðri þarfagreiningu og skýrum umhverfisskilyrðum (sjá www.vinn.is). Innkaupamáttur opinberra aðila er mikill og með þessum hætti geta þeir stuðlað að betra umhverfi, sparnaði og eflingu græns hagkerfis á Íslandi.

Heimildir

Case study um útboðin fyrir ICLEI 

Íslenskur vefur um vistvæn innkaup: www.vinn.is

Vefur ESB um vistvæn innkaup: http://ec.europa.eu/environment/gpp/index_en.htm

Skýrsla framkvæmdastjórnar ESB um stefnumarkandi opinber innkaup: http://ec.europa.eu/internal_market/publicprocurement/docs/modernising_rules/strategic-use-public-procurement-europe_en.pdf

Bakgrunnsskýrsla ESB vegna endurskoðunar löggjafar um opinber innkaup: http://ec.europa.eu/internal_market/publicprocurement/docs/modernising_rules/er853_1_en.pdf

Þú ert hér: Forsíða Nýtt frá stofnunum Vistvæn útboð Reykjavíkurborgar vekja alþjóðlega athygli

Um verkefnið

Verkefnið Vistvæn innkaup (VINN) varð til árið 2003 sem samstarfsvettvangur opinberra aðila sem höfðu áhuga á að innleiða og vinna að vistvænum innkaupum. Endurskoðuð stefna 2013 var útvíkkuð og tekur nú einnig til græns ríkisreksturs. Meginþættir verkefnisins eru að þróa vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur, upplýsa og aðstoða.

 

Aðstandendur verkefnisins

Fjármálaráðuneytið
Umhverfisráðuneytið
Ríkiskaup
Umhverfisstofnun
Samband íslenskra sveitarfélaga
Hafnarfjarðarbær
Reykjavíkurborg
Landspítali

Hafðu samband

Hafir þú spurningar, athugasemdir eða fréttir er best að hafa samband í gegnum This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. .

Sjá einnig á Facebook og Twitter.

 

Flestar myndirnar á vefnum tók Hugi Ólafsson en nokkrar eru fengnar úr myndabanka norden.org.