Fréttir
Vistvæn innkaup í Sveitarstjórnarmálum
Í septemberblaði Sveitarstjórnarmála birtist eftirfarandi grein um vistvæn innkaup
Vistvæn innkaup opinberra aðila - vannýtt tækifæri?
Í Evrópu eru opinber innkaup talin nema um 18% af vergri þjóðarframleiðslu. Á Íslandi má því áætla að opinber innkaup á Íslandi séu um 300 milljarðar á ári, þar af eru innkaup sveitarfélaga um 150 milljarða á ári. Áhrifamáttur opinberra innkaupa er mikill. Með því að setja skýrar umhverfiskröfur í innkaupum gefst tækifæri til virkrar samkeppni og hvatning til nýsköpunar um vistvænar vörur og þjónustu á markaðinum. Um leið er dregið úr umhverfisáhrifum innkaupa og neyslu í opinberri starfsemi og samfélaginu öllu.
En hvað eru vistvæn innkaup?
Vistvæn innkaup er að velja þá vöru eða þjónustu sem er síður skaðleg umhverfinu eða heilsu manna og ber sama eða lægri líftímakostnað samanborið við aðrar vörur og þjónustu sem uppfylla sömu þörf.
Árangur Reykjavíkurborgar
Árið 2009 voru tvö ræstingarútboð á vegum Reykjavíkurborgar, hvar sett voru skýr umhverfisskilyrði m.a. um efnanotkun og gefin stig ef þjónustan uppfyllti kröfur um umhverfisvottun. Útboðin byggðu á ítarlegri þarfagreiningu í samráði við notendur.
Árangur útboðanna var eftirfarandi:
- Kostnaður vegna ræstinganna minnkaði um 50%, þ.e. um 90 milljónir á ári.
- Efnanotkun minnkaði um 65% í öðru útboðinu og 33% í hinu.
- Meira en 95% af efnum í ræstingunum eru umhverfisvottuð.
- Plastpokanotkun í skrifstofuhúsnæði minnkaði um 200 kg ári.
- Heilsusamlegra vinnuumhverfi.
- Aukin ánægja hjá starfsfólki Reykjavíkurborgar með ræstingarnar.
- Mikil fjölgun Svansvottana á Íslandi. Markaðshlutdeild Svansvottaðrar ræstingarþjónustu jókst úr því að vera minna en 10% árið 2009 í meira en 50% árið 2011.
- Stóraukið framboð af vistvænum ræstingarefnum og ræstingarvörum hjá söluaðilum á Íslandi.
Ljóst er að með vistvænum innkaupum hafa sveitarfélög tækifæri til að hagræða og bæta umhverfi og heilsu. Sjá nánari upplýsingar og verkfæri á vef stýrihóps um vistvæn innkaup http://vinn.is/
Höfundar:
Hulda Steingrímsdóttir, umhverfisfræðingur hjá Alta og starfsmaður stýrihóps um vistvæn innkaup
Guðmundur B. Friðriksson skrifstofustjóri hjá Reykjavíkurborg og fulltrúi Samband íslenskra sveitarfélaga í stýrihóp um vistvæn innkaup
Verkefnið Vistvæn innkaup (VINN) varð til árið 2003 sem samstarfsvettvangur opinberra aðila sem höfðu áhuga á að innleiða og vinna að vistvænum innkaupum. Meginþættir verkefnisins eru að þróa vistvæn innkaup, upplýsa og aðstoða. Aðstandendur VINN; Samband íslenskra sveitarfélaga, fjármálaráðuneytið, umhverfisráðuneytið, Ríkiskaup, Umhverfisstofnun, Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbær